Efnaskipti í hrossum

Á sama tíma og það gerist enn að hross séu vanfóðruð er þó offóðrun og þar af leiðandi offita sífellt meira vandamál hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Íslenski hesturinn, sem talinn er til hóps hrossakynja sem er auðvelt að halda og fóðra, þurfti lengi vel að treysta á Guð og gaddinn. Viðsnúningurinn yfir í að hafa of auðveldan aðgang að fóðri hefur verið snöggur og margir sem halda hross hafa ef til vill ekki áttað sig nógu fljótt á því. Margt getur valdið þessu, hlýrra veður og betri spretta samhliða mikilli tæknivæðingu í öflun heyja sem gerir það að verkum að bæði eykst framboðið og heyin eru sterkara fóður en áður var. Auk þess er hestum ef til vill gefið of mikið. Algengt er að útigangshross standa í vel verkuðu rúlluheyi alla daga í þröngum haga, þar sem þau hafa hvorki tækifæri til að hreyfa sig nóg né éta sinu með. Íslenskir hestar þurft að aðlagast þessari velmegun á tiltölulega stuttum tíma, sem og önnur hrossakyn því ekki eru nema 10 ár frá því að bandarískir dýralæknar settu fyrst fram sameiginlegt álit á sjúkdómnum.

Berglind Ýr Ingvarsdóttir rannsakaði EMS – Equine Metabolic Syndrom, efnaskiptaröskun í hrossum, í lokaritgerð sinni til BS gráðu við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Markmiðið var að gera forathugun á umfangi EMS í hrossum hér á landi og voru einkennin metin sjónrænt við eftirlit með velferð hrossa. Ekki voru þó gerð sértæk próf til að staðfesta greininguna. En einkenni EMS eða efnaskiptaröskunar hjá hrossum eru nokkuð auðgreinanleg. Einkennin eru helst offita og/eða staðbundin fitusöfnun á makka og/eða lend, hækkun á insúlíni í blóði, óeðlileg insúlínsvörun við inngjöf glúkósa, auk hófsperru. EMS er samheiti yfir ýmis frávik í efnaskiptum sem auka hættu á hófsperru, en talið er að allt að 90% tilvika hófsperru orsakist af EMS.